Þegar ljóst var að koma Costco væri staðreynd lögðu íslensk olíufélög og fyrirtæki á smásölumarkaði allt kapp á að styrkja stöðu sína og búa sig undir að keppa við næststærsta smásala í heimi. Skeljungur vildi kaupa Basko, móðurfélagi 10-11, Dunkin’ Donuts, Iceland-verslananna og fleiri verslana. Skeljungur féll hins vegar frá kaupunum því „það voru ákveðin atriði sem ekki gengu eftir“ samkvæmt Hendrik Egholm, forstjóra Skeljungs.

Hann gat þó ekki farið í smáatriðum út í hvers vegna svo hefði verið. Hann tók þó fram að Skeljungur og Basko ættu í góðu samstarfi, enda 10-11-verslun við margar bensínstöðva Skeljungs. Í desember var svo tilkynnt að Skeljungur hefði keypt Heimkaup, Hópkaup og Bland. Hagar festu kaup á Lyfju og Olís. Samkeppniseftirlitið stöðvaði kaup félagsins á Lyfju þar sem verslanir félaganna væru á sama markaði – snyrtivörumarkaði.

Samkeppniseftirlitið hefur ekki enn skorið úr um hvort Hagar megi kaupa Olís, en Finnur Árnason, forstjóri Haga, er sannfærður um að kaupin verði heimiluð þar sem að „[m]iðað við fyrri niðurstöður samkeppnisyfirvalda og Hæstaréttar eru Hagar og Olís að öllu leyti á sitthvorum markaðnum. Einn stór þáttur í því er að ég tel fráleitt að við séum í markaðsráðandi stöðu eins og við vorum skilgreind í eftir mjólkurmálið svokallaða árið 2005 því staðan er gjörbreytt,“ eins og hann sagði í Viðskiptablaðinu á aðventunni.

Hann telur þó „mjög sérstakt“ að Samkeppniseftirlitið hafi óskað eftir skoðunum almennings á kaupunum. Síðast en ekki síst festi N1 kaup á Festi, móðurfélagi Krónunnar, Elko og fleiri verslana. Kaupin eru háð samþykki Samkeppniseftirlitsins. Gangi viðskiptin eftir er gert ráð fyrir að þeim ljúki á 2. ársfjórðungi 2018, en kaupverðið ræðst af afkomu Festis.

Nánar er fjallað um málið í Áramótum , sérriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .