Karíbahafsparadísin Tortóla hefur verið nokkuð til umfjöllunar á Íslandi æ síðan Styrmir Gunnarsson drap á hana í Staksteinum í Morgunblaðinu árið 2005.

Það var þó ekki fyrr en árið 2009, sem eitthvað fór að bera á fréttum af íslenskum fjármálaumsvifum þar á Bresku Jómfrúreyjum. Eins og sjá má að ofan ná önnur vinsæl aflandssvæði í heiminum varla máli í íslenskum fjölmiðlum.

Samt er það nú svo að Tortóla er alls ekki í fremstu röð á þessu sviði og sárasjaldan talin upp í fjölmiðlaumfjöllun eða skýrslum um aflandssvæði, hugsanlega vegna þess að skattalegt hagræði af rekstri þar er lítið. Það var svo sem auðvitað að Íslendingar væru eftir á í þeirri tísku líka.