Andri Már Ingólfsson, forstjóri og eigandi Primera Travel Group, er ekki par sáttur við marga þá Íslendinga sem fóru mikinn á árunum fyrir hrun. „Það var ekki auðvelt að vera íslenskt félag í Skandinavíu eftir hrunið. Tortryggnin var gríðarleg gagnvart íslenskum félögum, misvitrir fjárfestar skildu eftir sig sviðna jörð og það var farið illa með orðspor okkar. Við sem stóðum í lappirnar þurftum að glíma við þá tortryggni. Í raun voru allir settir undir sama hatt,“ segir Andri Már í ítarlegu viðtali sem birtist í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.

Var fjármögnun félagsins aldrei teflt í tvísýnu á þessum tíma?

„Nei, ástæðan er sú að við áttum mikið lausafé. Það voru nokkrar grundvallarákvarðanir sem breyttu miklu. Ég hafði nokkru fyrir hrun mjög slæma tilfinningu fyrir ástandinu hér á Íslandi. Við fluttum því allan gjaldeyri okkar erlendis, til Danske Bank, Nordea og Svedbank. Það var í ágúst 2008. Á sama tíma seldum við öll okkar hlutabréf og skuldabréf hérlendis og erlendis. Tapið nam mörg hundruð milljónum en var aðeins brotabrot af því sem hefði annars orðið. Þetta voru lykilákvarðanir. Fjármögnun félagsins hefur ávallt verið mjög rúm og skuldir voru ekki miklar,“ segir Andri Már.

Í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins er að finna ítarlegt viðtal við Andra Má. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.