Það hefur vakið talsverða athygli í verktakageiranum að ekkert þeirra 15 tilboða sem bárust í breikkun Suðurlandsvegar að Draugahlíðarbrekku ofan við Litlu kaffistofuna var undir 80% af kostnaðaráætlun.

Samt voru 12 af 15 tilboðum undir kostnaðaráætlun Vegagerðarinnar.

Í fyrri útboðum var algengt að sjá tilboð á bilinu 50-60% af kostnaðaráætlun. Velta menn því fyrir sér hvort Vegagerðin hafi breytt forsendum í sínum útreikningum með lækkuðu og þá um leið óraunhæfu kostnaðarmati.

Rögnvaldur Gunnarsson, forstöðumaður hjá Vegagerðinni, segist ekki sjá neitt athugvert við dreifinguna á þessum tilboðum.

„Vegagerðin er með einingaverðabanka sem er endurskoðaður reglulega, ekki fyrir einstök verk, heldur sem heild, og það hefur ekki orðið nein breyting á aðferðafræði við þá endurskoðun.“

Arnarverk ehf. í Kópavogi átti lægsta boð í þetta verk upp á rúmlega 606 milljónir króna sem er 80,9% af áætluðum verktakakostnaði.