Halldór J. Kristjánsson, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, segir í ítarlegu viðtali við Viðskiptablaðið í dag, að ákvörðun um að hefja starfsemi undir merkjum Icesave í Hollandi í maí á þessu ári undir merkjum móðurfélagsins en ekki dótturfélags verði að skoðast í ljósi þess að á þeim tíma var búið að ná samkomulagi við Breta um Icesave-reikningana þar í landi.

"En meginástæðan var einfaldlega sú að Landsbankinn var búinn að starfrækja útibú í Hollandi frá árinu 2006 þannig að þegar varan var tilbúin var einfalt að bjóða hana þar. Og innlánin þar áttu upphaflega fyrst og fremst að vera til þess að fjármagna útlánastarfsemina í Hollandi, sem var upphafið að starfsemi okkar þar. Það má heldur ekki gleyma því að við erum með eignir upp á 600-700 milljónir evra á móti innlánunum í Hollandi. Okkur kom auðvitað aldrei í hug að þetta myndi leggjast á íslenskt þjóðarbú enda er ekki ástæða til að ætla að það gerist, því nú eftir að neyðarlögin hafa verið sett, sem setur innistæður í forgang, þarf reyndar að ganga býsna mikið á eignir Landsbankans til þess að það sé ekki hægt að mæta innlánskröfunum, eða meira en 50%."

Halldór segir einnig að frá uppafi hafi það verið stefnan að gera þetta "í gegnum  dótturfélag í Hollandi og það var unnið að því samhliða því að við hófum töku innlánanna. Það voru meira að segja sérstakir skilmálar í þeim reikningum um að við gætum hvenær sem væri flutt þá einhliða yfir nótt í dótturfélag. Hins vegar vorum við í miðju ferli þess að stofna dótturfélag í Hollandi þegar þetta allt brast á í október. Við áttum auðvitað alls ekki von á því að málin þróuðust síðan á versta hugsanlega veg vegna þess að Landsbankinn hafði, samkvæmt okkar áætlunum, tiltölulega léttar afborganir fram til sumarsins 2009 og lausafjárstaðan var prýðileg.“

Í viðtalinu segir Halldór einnig að upphaflega hefði verið farið af stað með Icesave undir merkjum móðurfélagsins í Bretlandi en ekki dótturfélags til þess að auðvelda fjármögnun samstæðunnar í heild. Það hefði torveldað heildarlausafjármögnun bankans að vera með Icesave í dótturfélagi en Halldór segist þó hafa verið  fylgjandi þeirri leið, almennt séð. "En það er líka afar mikilvægt að gera sér grein fyrir því að við ræddum tilhögun innlánsreikninganna við bresk yfirvöld í vor. Ég vil einnig taka það skýrt fram í því sambandi að þær viðræður kölluðu ekki á atbeina íslenskra stjórnvalda eða einstakra ráðherra í ríkisstjórninni," segir þar.

Nánar í viðtali Viðskiptablaðsins við Halldór J. Kristjánsson