Raftækjaframleiðandinn Toshiba ýkti hagnað sinn um samtals 1,2 milljarða Bandaríkjadali yfir nokkurra ára skeið. Þetta er niðurstaða óháðrar rannsóknar sem Toshiba fór fram á að yrði framkvæmd.

Japanska fyrirtækið segist taka þessum fregnum mjög alvarlega og bað þar að auki hluthafa innilegrar afsökunar. Þessar ýktu hagnaðartölur eru þrefalt hærri en Toshiba hafði upphaflega talið þegar rannsókninni var hrundið af stað.

„Innan Toshiba var fyrirtækjamenning þar sem starfsmaður gat ekki unnið gegn skipunum yfirmanna sinna,“ segir meðal annars í skýrslu rannsóknanefndar um málið.

„Þess vegna fór það svo að þegar æðstu stjórnendur komu með „áskoranir“ fyrir starfsmenn, þá beittu þeir ófullkomnum bókhaldsaðferðum til að ná þeim markmiðum sem voru sett.“