Japanski tölvuframleiðandinn Toshiba mun koma til með að biðja um lán upp á allt að 300 milljarða japanskra jena eða um 321 milljarða króna á næsta ári. Ástæðan er sú að fyrr á árinu komst upp um að fyrirtækið hafði ýkt hagnað sinn um samtals 1,2 milljarða Bandaríkjadali yfir nokkurra ára skeið.

Greint var frá því fyrir stuttu að Toshiba hefur tapað 585 milljörðum íslenskra króna á árinu. Þúsundum verður sagt upp hjá fyrirtækinu, sem hyggst skera rækilega niður í rekstrinum. Framkvæmdastjórar félagsins hafa gefið út áætlun um að segja upp 7.800 störfum, sem nemur 30% heildarstarfsafla þess, fyrir 31. mars á næsta ári.

Lánveitingin sem fyrirhuguð er eftir áramót er liður í endurskipulagningu fyriritækisins en búist er við því að hún verði sótt frá bönkum á borð við Mizuho Bank og Sumitomo Mitsui Banking Corp.