Stjórnarformaður Toshiba, Shigenori Shiga hefur sagt af sér, nokkrum klukkustundum eftir að japanska stórfyrirtækið gaf út afkomutölur sem sýndu margra milljarða tap fyrirtækisins.

Fyrirtækið hafði áður seinkað því að gefa út niðurstöður uppgjörsins en síðan gaf það út að fyrirtækið að það stefndi í 390 milljarða jena tap á 12 mánaða tímabilinu sem nær til mars árið 2017.

Afskriftir nema 712,5 milljörðum

Það samsvarar um 386 milljörðum íslenskra króna, en fyrirtækið býst við að þurfa að afskrifa um 712,5 milljarða jena af kjarnorkuiðnaði sínum í Bandaríkjunum.

Hafa sumir greinendur varað við að staðan gæti sett framtíð fyrirtækisins í hættu, en stjórnarformaðurinn hefur sagt af sér til að axla ábyrgð á stöðunni.

Hlutabréf í fyrirtækinu lækkuðu um 8,01% í viðskiptum dagsins en síðan í desember hefur gengi bréfa fyrirtækisins lækkað um helming þegar fyrirtækið gaf fyrst út afkomuviðvörun.

Tap af Westhinghouse

Tapið kemur til vegna samnings sem dótturfélag fyrirtækisins í Bandaríkjunum, Westinghouse Electric gerði þegar það keypti kjarnorkuþjónustufyrirtækið Chicago Bridge & Iron árið 2015. Eignir fyrirtækisins virðast vera verðminni en upphaflega var talið auk deilna um frekari greiðslur.

Toshiba hefur tilkynnt að það hyggist selja hluta af hagkvæmri framleiðslu sinni á minnisflögum til að vega upp á móti tapinu. Einnig er búist við því að fyrirtækið dragi sig að hluta til út úr kjarnorkuiðnaðinum.

Fyrirtækið er enn að ná sér eftir að það kom í ljós árið 2015 að fyrirtækið hefði í sjö ár gefið upp of miklar tekjur, sem þýddi að þáverandi framkvæmdastjóri þurfti að segja af sér.