Stofnskrá nýs styrktarsjóðs, sem kenndur er við Watanabe, verður undirrituð af stofnandanum Toshizo Watanabe, Geir H. Haarde forsætisráðherra og Kristínu Ingólfsdóttur, rektor Háskóla Íslands við athöfn fimmtudaginn 18. september 2008 í Hátíðasal Háskóla Íslands.

Stofnframlag Watanabe til sjóðsins er þrjár milljónir Bandaríkjadala (um 276 milljónir íslenskra króna).

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Háskóla Íslands.

Þar segir að tilgangur Styrktarsjóðs Watanabe við Háskóla Íslands er að veita styrki til skiptináms í Japan og á Íslandi, bæði nemendum í grunnnámi og framhaldsnámi, auk þess að stuðla að kennaraskiptum.

Styrkir sjóðsins geta náð til uppihalds, ferða og skólagjalda, en fyrsta úthlutun fer fram ekki síðar en einu ári frá stofnun sjóðsins.

Stjórn sjóðsins skipa þrír einstaklingar og er skipunartími stjórnar þrjú ár. Rektor skipar formann stjórnar og Toshizo Watanabe og Geir H. Haarde skipa einn stjórnarmann hvor.

Þá er sagt frá því í tilkynningunni að Toshizo Watanabe nam við Brandeis háskólann í Waltham, Massachusetts í Bandaríkjunum og var skiptinemi í nemendaskiptakerfi sem kallast Wien International Scholarship Program. Þar hlaut hann BS-gráðu í stjórnmálafræði árið 1973.

Watanabe brautskráðist síðan með MBA-gráðu frá Pepperdine háskólanum í Kaliforníu í Bandaríkjunum, árið 1992.

Í framhaldinu varð hann stjórnarformaður, forstjóri og eigandi Nikken-fyrirtækisins sem hefur höfuðstöðvar í Bandaríkjunum. Watanabe kynntist Íslandi á námsárum sínum í Bandaríkjunum en þar sat hann á skólabekk með Geir H. Haarde forsætisráðherra og tókst með þeim ágæt vinátta sem haldist hefur fram á þennan dag að því er kemur fram í tilkynningunni.