Christophe de Margerie, forstjóri franska olíufyrirtækisins Total, lést í flugslysi í gær þegar einkaflugvél fyrirtækisins lenti í árekstri við snjóplóg við flugtak frá flugvellinum í Moskvu. Alls létust fjórir um borð í flugvélinni og hafa borist fregnir af því að ökumaður snjóplógsins hafi verið valdur að slysinu, en hann sat ölvaður undir stýri.

Total hefur nú skipað eftirmann de Margerie og mun Patrick Pouyanne taka við stöðunni. Pouyanne er menntaður verkfræðingur og hefur starfað fyrir Total frá árinu 1997, en vann þar áður fyrir iðnaðarráðuneyti Frakklands.

Total er næststærsta fyrirtæki Frakklands og þriðja stærsta olíufyrirtæki Evrópu.