*

fimmtudagur, 21. janúar 2021
Erlent 8. júní 2020 19:05

Er Toulouse að breytast í Detroit?

Niðurskurður Airbus gæti leitt til 80 þúsund tapaðra starfa í Occitaine héraðinu í Frakklandi.

Ritstjórn
Samsetning Airbus A350XWB í Toulouse í Frakklandi.
Aðsend mynd

Fyrir rúmlega þremur mánuðum átti Gillis Aerospace, framleiðslufyrirtæki rétt fyrir norðan Toulouse í Frakklandi, í erfiðleikum með mæta eftirspurn eftir málmfestingum og skrúfum fyrir flugvélar. Í dag er hins vegar lítið að gera fyrir 45 starfsmenn fyrirtækisins eftir hnignun flugiðnaðarins vegna heimsfaraldursins. 

„Í febrúar vorum við að afhenda vörur á síðustu stundu,“ er haft eftir Serge Dumas, eiganda fyrirtækisins, í frétt Reuters. „Á örfáum dögum fórum við úr því að vera á bensíngjöfinni í það að bremsa harkalega. Við vorum gáttuð.“ 

Gillis Aerospace, sem hefur haft um 5 milljónir evra í árlegar tekjur, hefur hætt við 800 þúsund evra fjárfestingu í nýrri verksmiðju og vélbúnaði.

Franska ríkið og aðrir lánveitendur hafa sett á fót eins milljarðs evra sjóð til að styðja við flugvélaiðnaðinn í Frakklandi. Í Occitaine héraðinu í Frakklandi er áætlað að um 40 þúsund störf í iðnaðinum séu í hættu og þar af um helmingur sem starfar í tengslum við flugvélaframleiðandann Airbus, sem staðsettur er í Toulouse. 

Stefnir í annað Detroit?

Ýmsir aðilar hafa áhyggjur af því að atvinnustarfsemi í Toulouse sé of einhæf. Hnignun flugiðnaðarins geti leitt til þess að Toulouse, sem er fjórða stærsta borgin í Frakklandi, verði fyrir sömu örlögum og Detroit.

Borgin Detroit í Michigan fylki, var ein af ríkustu borgum Bandaríkjanna um miðja síðustu öld. Eftir kreppu í bílaiðnaðinum og lokana verksmiðja á síðustu áratugum er fólksfjöldinn í Detroit nú um helmingi minni en þegar hann náði hámarki árið 1950. 

„Núna eru um 86 þúsund störf í undiverktakastarfsemi í flugiðnaðinum í Occitaine og Airbus kaupir um 5 milljarða evra virði af aðföngum í flugvélar á svæðinu,“ er haft eftir Alain Di Crescenzo, forseta viðskiptaráðs iðnaðar í Occitaine (CCI). Um 30 þúsund aðrir starfa hjá flugvélaframleiðendum. 

„Þegar Airbus hóstar, þá veikjast allir,“ bætti hann við. 

CCI býst við að aðfangakaup Airbus muni helmingast á árinu. Slíkur samdráttur gæti vegið mjög þung fyrir skuldsetta aðfangaframleiðendur. Niðurskurður Airbus mun leiða til 40 þúsund tapaðara starfa í héraðinu og annarra 40 þúsund tapaðra ótengdra starfa, samkvæmt Di Crescenzo.