Fyrirtækið TourDesk hefur frá stofnun árið 2013 unnið frumkvöðlastarf í ferðaþjónustu á Íslandi. Það hefur þróað veflausn, sem auðveldar ferðamönnum að bóka ferðir um landið á meðan á dvöl þeirra hér stendur. Fyrirtækið er í eigu þeirra Sigurþórs Marteins Kjartanssonar, Erlings Gudjohnsen og Hjartar Atla Guðmundssonar, sem er framkvæmdastjóri.

Fjöldi ferðaskrifstofa og ferðaskipuleggjenda bjóða ferðir sínar til sölu í gegnum TourDesk. Hjörtur segir að á næstu vikum verði þjónustan bætt mikið því samið hafi verið við bílaleigurnar Hertz og Enterprise um að bjóða bíla til leigu í gegnum TourDesk. Hann  segir að þetta muni enn auðvelda erlendum ferðamönnum að skipuleggja sína dvöl hérlendis á einfaldan máta.

Hvað er TourDesk?

Veflausnin var í fyrstu aðallega hugsuð fyrir hótel en nú eru sífellt fleiri ferðaþjónustufyrirtæki og jafnvel einstaklingar farnir að nýta sér lausnina.  Á þeim hótelum sem nota TourDesk fær hótelgesturinn aðgang að vefsíðu, þar sem hann getur skoðað úrvalið, sem er í boði af ferðum og afþreyingu. Hann getur sjálfur bókað með einum smelli eða fengið starfsmann hótelsins til að bóka fyrir sig í gegnum þetta kerfi.

Hjörtur Atli segir að með þessu sé búið að einfalda mikið ferli, sem hafi verið óþarflega flókið. Gesturinn geti skoðað í rólegheitum úrvalið af ferðum og afþreyingu,  því um leið og hann bóki gistingu á hóteli, sem noti TourDesk, fái hann aðgang að vefsíðunni. Þannig geti hann í raun byrjað að skoða úrvalið áður en hann komi til landsins og gengið frá bókuninni sjálfur hvenær sem er. Þetta þýði að starfsmaður hótelsins þurfi ekki að hringja eða senda tölvupóst til að bóka ferð og bíða síðan eftir staðfestingu og skrifa jafnvel úttektarmiða (e. voucher).

Hjörtur segir að til viðbótar þessu auðveldi TourDesk alla bakvinnslu og bókhald hjá hótelunum. Það losni við að fara yfir reikninga og stemma þá af. Sú vinnsla séí raun innt af hendi af starfsmönnum TourDesk eða öllu heldur kerfinu sem þeir hafa þróað.

Fjöldi notenda

Að sögn Hjartar Atla er stærsti hluti hótela- og gististaða á höfuðborgarsvæðinu að nota TourDesk í dag.

„Á meðal þeirra sem eru að nota kerfið er KEA-hótelkeðjan, Hótel Alda, Hótel Óðinsvé, Oddsson og Hótel Ísland, svo ég nefni einhver. Það eru um það bil 85 aðilar að nota kerfið í dag og fá greidda þóknun fyrir það. Það sem hefur gerst er að flestir sem eru að opna hótel í dag hafa samband við okkur og það er gríðarlega jákvætt og segir okkur að við höfum verið að gera eitthvað rétt.

Það tók okkur dágóðan tíma að sannfæra markaðinn um að okkar vara sé góð. Það voru ekki margir sem trúðu því í upphafi að með því að nota TourDesk væri hægt að lækka kostnað en auka tekjurnar á sama tíma.

Á síðasta ári fimmfölduðum við söluna á vefnum en þá ég við lausnina sem snýr að gestinum sjálfum, þar sem hann bókar sjálfur í gegnum vefsíðuna. Hin hliðin á peningnum er veflausnin sem snýr að hótelinu, þar sem hótelstarfsmaðurinn sér um að bóka fyrir gestinn."

Á sýningu í Amsterdam

Hjörtur Atli segist hafa fengið töluvert af fyrirspurnum erlendis frá.

„Við vorum einmitt beðnir um að taka þátt í stórri sýningu í síðustu viku — HITEC sýningunni í Amsterdam. Þegar við fórum þangað bjuggumst við við því að sjá nokkrar svipaðar lausnir og vorum reyndar undir það búnir að aðrir væru komnir lengra en við en það var alls ekki raunin. Það var enginn að bjóða upp á samskonar vöru og við erum með. Við virðumst því hafa dottið niður á eitthvað sem fáir aðrir hafa verið að hugsa út í. Í okkar kerfi þá eru bókanir í rauntíma sem þýðir í raun að það er ekki hægt að bóka ferð nema það sé laust í hana, svo ég taki dæmi. Í Amsterdam hittum við fullt af fólki sem sýndi TourDesk áhuga, þetta voru allt frá stjórnendum hótela og ferðaskrifstofa til forsvarsmanna fjárfestingarsjóða."

Hjörtur segist vilja vera varkár í yfirlýsingum um mögulega útrás TourDesk.

„Við höfum ekki lagt neitt púður í markaðssetningu erlendis enn sem komið er. Við höfum fyrst viljað sanna okkur hér heima — almennt er það góð regla. Ég tel að kerfið hafi nú þegar sannað sig og þess vegna er ekkert launungarmál að við viljum fara að horfa aðeins út fyrir landsteinana. Við munum aftur á móti fara okkur hægt. Það er mjög auðvelt að gefa sér einhverjar forsendur og setja upp viðskiptamódel í Excel sem gerir ráð fyrir gríðarlegum tekjum. Við föllum ekki í þá gryfju. Við yrðum gríðarlega ánægðir ef tvö til þrjú hótel úti í heimi myndu taka okkar kerfi inn á þessu ári. Að þessu sögðu er sjálfsagt að geta þess að erlendar ferðaskrifstofur hafa notað TourDesk í þónokkurn tíma og þá til þess að selja ferðir á Íslandi."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .