Toyota í Evrópu hefur ákveðið að kalla inn 8 gerðir af Toyota bifreiðum vegna mögulegs vandamáls í eldsneytisgjöf.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Toyota á Íslandi en Toyota hefur verið að innkalla bifreiðir af sömu ástæðum í Evrópu og Bandaríkjunum síðustu vikur. Vandamálið getur komið upp vegna þess að um slit er að ræða í eldsneytisgjöfinni.

Við ákveðnar umhverfis- og notkunaraðstæður getur þetta slit orðið til þess að núningur í eldsneytisgjöfinni eykst sem verður síðan til þess að af og til getur orðið erfiðara að stíga á bensíngjöfina, hún lyftist hægar til baka í upphafsstöðu eða í versta falli getur hún orðið föst að einhverju leyti í inngjafarstöðu.

Bifreiðarnar sem um ræðir og framleiðslutími þeirra er sem hér segir:

  • AYGO    Febrúar 2005 til ágúst 2009
  • iQ    Nóvember 2008 til nóvember 2009
  • Yaris   Nóvember 2005 til nóvember 2009
  • Auris   Október 2006 til 5. janúar 2010
  • Corolla   Október 2006 til desember 2009
  • Verso  Febrúar 2009 til 5. janúar 2010
  • Avensis  Nóvember 2008 til desember 2009
  • RAV4    Nóvember 2005 til nóvember 2009

Ekki er enn ljóst hver heildarfjöldi innkallaðra bifreiða í Evrópu verður en talið er að kalla þurfi inn allt að 1,8 milljón bíla. Fram kemur að vandamálið hefur hvorki komið upp í öðrum gerðum Toyota né Lexus bifreiðum.

„Toyota hefur alltaf lagt ofurkapp á að tryggja öryggi viðskiptavina sinna.  Við munum því gera allt sem í okkar valdi stendur til að hefja þær fyrirbyggjandi aðgerðir sem félagar okkar hjá Toyota í Evrópu hafa boðað sem allra fyrst,“ segir Úlfar Steindórsson, forstjóri Toyota á Íslandi í tilkynningunni.

„Ég vil ítreka gagnvart viðskiptavinum okkar að tilvik sem þessi eru mjög sjaldgæf. Einungis hefur verið tilkynnt um 26 slík tilvik í Evrópu og Toyota í Evrópu hefur ekki fengið neinar fregnir af slysum tengdum þeim. Ég hvet hinsvegar eindregið þá sem hafa áhyggjur af virkni eldsneytisgjafar í bílum sínum að hafa samband við næsta þjónustuaðila Toyota.“

Lausn á ofangreindu vandamáli liggur fyrir hjá Toyota í Evrópu og er verið að leggja lokahönd á undirbúning og skipulag innköllunarinnar. Áætlað er að kalla þurfi inn yfir 5.000 bíla á Íslandi. Haft verður samband við eigendur viðkomandi bíla fljótlega og þeir beðnir að koma með bílinn til viðurkennds þjónustuaðila Toyota þeim að kostnaðarlausu.

Ofangreint vandamál mun ekki hafa áhrif á núverandi framleiðslu Toyotabifreiða þar sem nýr búnaður er notaður í þá bíla sem nú eru framleiddir.