Japanski bílarisinn Toyota telur að fyrirtækið muni ná aftur eðlilegu framleiðslustígi í desember. Jarðskjálftinn og fljóðbylgjan sem skall á Japan í mars olli því að miklar truflanir urðu á framleiðslu þessa stærsta bílaframleiðanda í heimi.

Stjórnendur Toyota tilkynntu í dag að stefnt sé að því að eðlileg framleiðsla muni hefjast í júlí í verksmiðjum fyrirtækisins í Japan og í ágúst í verksmiðjum þess í öðrum löndum. Þetta mun skila því að búið verður að vinna upp allar tafir á afhendingu bíla í árslok.

Atsushi Niimi, varaforseti Toyota, sagði þó við fréttamenn í dag að mjög ólíklegt væri að fyrirtækið myndi ná því takmarki sínu að selja 7,7 milljónir bíla á árinu 2011 líkt og upphaflega var áætlað. Hamfarirnar hafi þegar valdið því að pöntunum hafi fækkað eitthvað. Tilkynningin varð til þess að hlutabréf í Toyota hækkuðu í dag.