Toyota hefur endurheimt stöðu sína sem stærsti bílaframleiðandi heims, að því er segir í frétt BBC. Þar kemur fram að japanska fyrirtækið hafi selt 9,75 milljónir bifreiða í fyrra, sem sé aukning upp á 22% frá árinu á undan.

General Motors, sem var stærsti framleiðandinn árið 2011, seldi 9,29 milljónir bifreiða árið 2012. Náttúruhamfarir í Japan og Tælandi höfðu alvarleg áhrif á framleiðslugetu Toyota árið 2011, sem skýrir af hverju GM tók fram úr fyrirtækinu það árið.

Frá þeim tíma hefur Toyota sótt jafnt og þétt á, ekki síst á Bandaríkjamarkaði, og á það einnig við um aðra japanska bílaframleiðendur.