Toyota munu á næstunni byrja að borga starfsmönnum sínum í Japan fleiri yfirvinnutíma fyrir að mæta á gæðafundi fyrirtækisins utan vinnutíma. Þetta gerir fyrirtækið til að bregðast við fyrirtækjamenningu Japana, sem hefur sætt gagnrýni fyrir að gera menn að vinnuölkum.

Starfsmenn Toyota hafa hingað til aðeins getað rukkað fyrirtækið um tvo yfirvinnutíma fyrir að mæta á gæðafundina, þar sem ræddar eru hugmyndir starfsmanna til að bæta framleiðsluaðferðir og minnka kostnað fyrirtækisins, en starfsmenn ráða sjálfir hvort þeir mæta á umrædda fundi. Ákvörðun um þessar breyttu launagreiðslur tók Toyota í kjölfar dómsúrskurðar um að þrítugur starfsmaður fyrirtækisins sem hneig niður í verksmiðju þess hefði dáið vegna yfirvinnu. Maðurinn hafði unnið 106 yfirvinnutíma í síðasta mánuðinum sem hann lifði, meirihluta þeirra launalaust.

Í Japan þykir það sýna hollustu starfsmanna við fyrirtæki að vinna yfirvinnu sjálfviljugir launalaust. Toyota hafa ekki sagt til um hversu marga klukkutíma starfsmenn munu getað fá borgaða fyrir að mæta á fundi sjálfviljugir utan vinnutíma í framtíðinni.