„Við erum ekki að auglýsa kvörtunarrétt, heldur fimm ára ábyrgð með nýjum Toyota og Lexus bifreiðum sem er tveimur árum lengra en tíðkast hefur hingað til,“ segir Kristinn G. Bjarnason, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Toyota á Íslandi í samtali við Viðskiptablaðið.

Eins og frá var greint í morgun birtist pistill á síðu samtakanna þar sem fjallað var um auglýsingar Toyota umboðsins sem nýlega hóf að auglýsa bíla með fimm ára ábyrgð.

Kristinn segir að Neytendasamtökin hafi áður lagt áherslu á að skýr munur þurfi að vera á milli kvörtunarfrests og ábyrgðar. Full ástæða sé til að taka undir það enda sé Toyota nú að auglýsa ábyrgð til fimm ára, umkvörtunarfresturinn sé nú þegar lögbundinn í svokallaðri 5 ára reglu í neytendakaupalögunum.

„Nú fylgir tveggja ára ábyrgð á bifreiðum samkvæmt lögum. Hins vegar höfum við hingað til boðið ábyrgð til þriggja ára sem hefur mælst vel fyrir hjá viðskiptavinum okkar,“ segir Kristinn.

„Nú ætlum við hins vegar að framlengja þeirri ábyrgð til fimm ára þannig að við  bjóðum í raun upp á ábyrgð á bifreiðum okkar þremur árum lengur en lög segja til um.  Nánari upplýsingar um 5 ára ábyrgðina er að finna á heimasíðu okkar og hvetjum við alla til að kynna sér staðreyndirnar um 5 ára ábyrgð Toyota.“

Vildu vekja athygli á fimm ára reglunni

Við vildum einfaldlega vekja athygli á hinni svokölluðu fimm ára reglu um neytendavernd.

Þetta segir Hildigunnur Hafsteinsdóttir, lögfræðingur og stjórnandi Leiðbeininga- og kvörtunarþjónustu Neytendasamtakanna í samtali við Viðskiptablaðið aðspurð um umrætt mál.

„Við vildum minna neytendur á að samkvæmt lögum er að finna svokallað fimm ára reglu sem felur það í sér að kvörtunarfrestur vegna galla er nú þegar fimm ára. Í lögum er ekki talað um ábyrgð heldur kvörtunarfrest,“ segir Hildigunnur.

„Þegar seljandi er að tala um ábyrgð þarf að bjóða eitthvað meira en hefðbundinn kvörtunarfrest. Það er í raun ekkert að því að bjóða ábyrgð, en það þarf að bjóða eitthvað meira og á því vildum við vekja athygli. Það er ekki heimilt skv. lögum að gefa út ábyrgðaryfirlýsingu án þess að lista upp hverjir gallarnir eru og svo frv.“

Hildigunnur segir að það hafi ekki verið tilgangur með pistlinum að beina spjótum Neytendasamtakanna að Toyota. Hins vegar þurfi neytendur að vera meðvitaður um þann mun sem felst í ábyrgð annars vegar og kvörtunarfresti hins vegar.