Toyota gaf út endurskoðaða söluspá í dag þar sem gert er ráð fyrir sölu 350.000 færri bíla en áður var gert ráð fyrir. Er það vegna mikils samdráttar í eftirspurn á Bandaríkjamarkaði.

Framleiðsla Toyota mun á heimsvísu dragast saman um 1% á þessu ári miðað við árið 2007, niður í 8,43 milljónir bíla. Það verður í fyrsta sinn í sjö ár sem framleiðsla minnkar hjá Toyota.

Fleira en Bandaríkjamarkaður angrar Toyota því að eftirspurn eftir bílum, sérstaklega stærri ökutækjum, minnkar eftir því sem olíuverð hækkar. Auk þess hefur málmverð hækkað að undanförnu og strangari umhverfisverndarreglur hækka kostnað við rannsóknir og þróun hjá bílaframleiðendum.