Japanski bílaframleiðandinn Toyota býst við methagnaði sem nemur tæpum 2,13 billjónum jena (18 milljarðar Bandaríkjadala) á yfirstandandi fjárhagsári fyrirtækisins sem tekur enda í lok febrúar. BBC News greinir frá þessu.

Tekjur fyrirtækisins byggjast að mestu á útflutningi og hefur veikara jen bætt upp fyrir dvínandi eftirspurn í heimalandinu. Japanska jenið rýrnaði þannig í verði gagnvart Bandaríkjadal um 15% á síðasta ári, en stærsti markaður fyrirtækisins er í Bandaríkjunum.

Athygli vekur að yfirlýsing Toyota kemur þrátt fyrir að fyrirtækið hafi þurft að innkalla 1,75 milljónir bifreiða í október síðastliðnum vegna gallaðra bremsu- og eldsneytiskerfa. Þá spáir fyrirtækið einnig minni sölu en upphaflega hafði verið ráðgert og að hún muni telja 9 milljónir bíla í stað 9,05 milljóna. Aukin sala í Bandaríkjunum og veikari gjaldmiðill muni hins vegar bæta upp fyrir það.