Toyota lýsti því yfir í gær að félagið hygðist fjárfesta því sem um nemur 130 milljörðum íslenskra króna til gervigreindarþróunar.

Markmið rennireiðarisans er að gera verulegar umbætur á umferðaröryggi, auk þess sem víst er að félagið hefur ekki áhuga á að verða í síðasta sæti kapphlaupsins um snjallbílinn sem er í þann mund að hefjast - ef ekki þegar hafið.

Fjárfesting Toyota, sem dreifð verður yfir fimm ár, er viðbót við þær 50 milljónir bandaríkjadala sem fyrirtækið tilkynnti að það myndi styrkja rannsóknarteymi hjá Stanford og MIT.

Þess að auki frumsýndi félagið lítinn vélmennahjálpara á stærð og burð við hið alþekkta stjörnustríðsvélmenni R2-D2. Litli þjarkurinn rúllar um og hreyfir til stóla og hluti, og er hannaður til þess að aðstoða eldri borgara og fólk sem notast þarf við hjólastóla.