Í morgun var tilkynnt um útgáfu á skuldabréfum í íslenskum krónum erlendis en nokkuð hefur róast í útgáfunni undanfarið. Það sem er athyglisvert við útgáfuna í þetta sinn er að hún er á vegum Toyota Motor Credit Corporation.

Í Morgunkornum Íslandsbanka kemur fram að þetta er í fyrsta sinn sem það er ekki banki eða ríki sem standa að baki útgáfu skuldabréfa í íslenskum krónum erlendis.

Útgáfan er að fjárhæð fimm milljarðar króna og er gjalddagi bréfanna í júní 2007. Þarna er um að ræða dótturfyrirtæki Toyota sem sérhæfir sig í kaupleigu og fjármögnun fyrir Toyota í Bandaríkjunum og hefur það lánshæfismatið AAA (S&P) og Aaa (Moody's).

Fyrirtækið hefur verið nokkuð áberandi á Eurobond markaði í gegnum tíðina og því kemur ekki á óvart að það hafi bæst í hóp þeirra aðila sem gefa út skuldabréf í krónum erlendis.