Japanski bílarisinn Toyota hækkaði fyrr í dag afkomuspá fyrirtækisins fyrir árið 2017 um 16%. Fyrirtækið gerir nú ráð fyrir að rekstrarhagnaður ársins muni nema 1.850 milljörðum jena en hafði áður gert ráð fyrir að rekstrarhagnaður yrði 1.600 milljarðar jena. Samkvæmt frétt Reuters eru væntingar um veikt gengi japanska jensins ástæða hækkunarinnar.

Rekstrarhagnaður félagsins á öðrum ársfjórðungi nam 574,3 milljörðum jena og dróst saman um 11 frá sama tímabili í fyrra. Þrátt fyrir það var samdrátturinn minni en greiningaraðilar höfðu gert ráð fyrir.

Toyota greindi einnig frá því að félagið hefði skrifað undir samstarfssamning við Mazda um að reisa verksmiðju í Bandaríkjunum fyrir 1,6 milljarða dollara eins og Viðskiptablaðið greindi frá.