Innkalla þarf Toyota bifreiðar af árgerðunum 2003-2008 og 2015-2018, nánar tiltekið Auris og Corolla tegundir frá fyrra tímabilinu, og Yaris og Hilux frá því seinna. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Neytendastofu .

Eigendum þeirra bíla sem um ræðir verður tilkynnt um innköllunina bréfleiðis. Ástæðan er hugsanlegur galli í loftpúðum bifreiðanna, og innköllunin er hluti af alþjóðlegri innköllun, sem er sögð mega rekja til loftpúðaframleiðandans Takata.

Við innköllun er skipt um loftpúða, eða hluta af honum, að því er fram kemur, og getur aðgerðin tekið frá einni til fimm klukkustunda.

Alls er um 2.245 bíla að ræða, en um 70% þeirra, eða 1.556 eintök, eru 1-4 ára Yaris bílarnir. Nýlegu Hilux bílarnir eru 176 talsins, 10-15 ára Aurisarnir 317, og Corollurnar gömlu eru 23.