Bílaframleiðandinn Toyota greindi frá því í dag að hann muni kalla inn tæplega 1,4 milljónir bíla til viðbótar vegna hættulegra loftpúða frá hinu japanska Takata fyrirtæki. Reuters greinir frá.

Í heildina mun Toyota því kalla inn tæplega þrjár milljónir bíla vegna loftpúðanna, sem taldir eru getað valdið bana. Einhverjir loftpúðanna hafa opnast af allt of miklum krafti og halda forráðamenn Takata því fram að það geti gerst vegna of mikils raka.

Sjö dauðsföll í bifreiðum frá Honda hafa verið tengd við loftpúðana frá Takata og þar af sex þeirra í Bandaríkjunum.