Toyota hefur samið um kaup á sjálfaksturs-deild deilibílaþjónustunnar Lyft fyrir 550 milljónir dala, um 68 milljarða króna. 200 milljónir dala kaupverðsins verða greiddar út strax, en restinni verður dreift yfir 5 ár.

Lyft, sem hefur unnið að þróun tækninnar í fjögur ár, áætlar að salan muni spara félaginu 100 milljónir dala á ári í kostnað.

Nokkur samþjöppun hefur átt sér stað í þróun sjálfkeyrandi bíla, en helsti keppinautur Lyft, Uber, seldi samskonar deild sína í fyrra.

Starfsemi deildarinnar, sem ber nafnið Level 5 (tilvísun í efsta stig sjálfaksturs, sem skipt er í 5 þrep samkvæmt skilgreiningu Samtaka bifreiðaverkfræðinga, SAE), hefur að mestu falist í tilraunastarfsemi með sjálfkeyrandi bíla í Los Angeles. Tugir þúsunda leigubílaferða hafa verið eknar í þeim tilgangi af sjálfaksturshugbúnaði, en þó með bílstjóra til vara.

Þegar deildin var stofnuð árið 2017 setti Lyft henni það háleita markmið að meirihluti Lyft bílferða yrðu eknar af sjálfakandi bílum nú í ár.