Forstjóri Toyota, Akio Toyoda hefur gefið það út að Toyota muni ekki flytja verksmiðju sína úr Bretlandi, jafnvel þótt landið yfirgefi Evrópusambandið.

Akio Toyoda, er barnabarn stofnanda Toyota en ummæli hans hafa róað þúsundir starfsmanna sem starfa í verksmiðjum Toyota í Bretlandi. Toyoda sagði að fjölskylda sín hefði mikil tengsl við Bretland, sem ættu rætur að rekja allt til ársins 1929. Stofnandi Toyota seldi einkaleyfi á sjálfvirkum vefstól til Bretlands það ár, en fjármagnið nýtti hann til að hefja bílaframleiðslu.

Ummælin hafa verið vatn á millu þeirra sem vilja að landið gangi úr Evrópusambandinu. Ummælin koma illa fyrir stuðningsmenn áframhaldandi aðildar Bretlands í Evrópusambandinu, en David Cameron, forsætisráðherra Bretlands hefur hvatt framkvæmdastjóra erlendra fyrirtækja sem starfa innan Bretlands til að styðja við samningaviðræður Bretlands við Evrópusambandið og áframhaldandi veru Bretlands í sambandinu.

Kosið verður á árinu um hvort að Bretland muni vera áfram aðildarríki ESB. Samkvæmt nýjustu könnunum er rétt rúmlega helmingur Breta fylgjandi útgöngu úr sambandinu, eða 54%.