Sala á nýjum fólksbílum í maímánuði dróst saman um rúm 38% miðað við sama mánuð í fyrra.

Alls seldust 1.206 bílar í mánuðinum en í fyrra voru þeir 1.950. Fyrstu fimm mánuði ársins nemur samdráttur í fólksbílasölu 16,4%. Á þessum tíma hafa selst 5.150 bílar, þar af langmest á fyrstu tveimur mánuðum ársins, en fyrstu fimm mánuðina í fyrra seldust 6.160 bílar.

Af einstökum gerðum trónir Toyota í efsta sæti með 1.465 selda bíla það sem af er ári, sem er markaðshlutdeild upp á 28,4%. Allt árið í fyrra hafði Toyota markaðshlutdeild upp á 21,4%.

Sú bílgerð sem kemst næst Toyota í markaðshlutdeild það sem af er árinu er Subaru með tæp 7%. Samanlögð markaðshlutdeild Heklu, Öskju og Kia, sem lúta sama eignarhaldi, er á fyrstu fimm mánuðunum 19,4%.