Fjármögnunararmur bílaframleiðandans Toyota, TMCC, greindi frá því í dag að félagið hefur verðlagt skuldabréfaútboð í íslenskum krónum að virði fimm milljarðar. Heildarskuldbréfaútboð félagsins nemur nú tíu milljörðum, en nýja útboðið er önnur útgáfa félagsins.

"Umfang útgáfu skuldabréfa í krónum erlendis nemur nú tæpum 144 milljörðum króna, sem er 15% af áætlaðri landsframleiðslu þessa árs. Þessi mikla útgáfa á sér stað á sama tíma og verið er að glíma við methalla á utanríkisviðskiptum sem nemur 106 milljörðum á fyrstu þremur fjórðungum ársins," segir greiningardeild Íslandsbanka.

?Trúlegt er að þessi mikli viðskiptahalli hefði haft meiri áhrif á gengi krónunnar ef útgáfan hefði ekki komið til. Því dregur erlend útgáfa úr áhrifum viðskiptahallans á efnahagslífið til skamms tíma og segja má að útgáfan fjármagni hallann að hluta til."

Greiningardeild Íslandsbanka segir áhrif innanlands koma fram í auknum þrýstingi til lækkunar óverðtryggða vaxtarófsins og verða áhrif af vaxtahækkunarferli Seðlabanka því frekar um gengi krónu en af vöxtum á markaði. Útgáfan vinnur þannig gegn þeim áhrifaþáttum sem hraðast geta slegið á þá miklu þenslu sem er til staðar hér á landi um þessar mundir.

?Okkar mat er að útgáfa skuldabréfa í krónum erlendis haldi áfram um skeið eða á meðan vaxtamunur helst hár, þó eitthvað geti dregið úr hraða útgáfunnar eftir því sem nær dregur vaxtalækkunarferli Seðlabankans," segir greiningardeildin.