*

föstudagur, 10. júlí 2020
Innlent 2. júlí 2018 18:32

Toyota mun bregðast við tilmælunum

Forstjóri Toyota segir að fyrirtækið hafi talið sig hafa sagt rétt og satt frá í auglýsingum um að Hybrid bílar noti rafmagn að helmingi.

Ritstjórn
Páll Þorsteinnson er upplýsingafulltrúi Toyota á Íslandi.
Haraldur Guðjónsson

Páll Þorsteinsson upplýsingafulltrúi Toyota á Íslandi segir að fyrirtækið muni fara að tilmælum Neytendastofu vegna auglýsinga félagsins um að Hybrid bílar þess séu 50% rafdrifnir. Neytendastofa hefur sett bann við birtingu auglýsinga með þessum orðum þar sem ekki hafi komið fram skýringar um að átt er við aksturtíma bílanna, en ekki vegalengd sem keyrð er.

Segir stofnunin það brjóta í bága við lög um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu. Fyrirtækið segir auglýsingarnar byggðar á rannsókn sem gerð var á Ítalíu sem sýndi að í um 53% aksturstímans nýttu Hybrid bílarnir rafmagnsmótorinn og væri auglýsingin að forskrift fyrirtækisins erlendis frá.

Munu fara að tilmælum Neytendastofu

„Við teljum okkur hafa sagt rétt og satt frá í þessu, en við erum að gera breytingar samkvæmt tilmælum Neytendastofu og síðan munum við birta endurbættar auglýsingar,“ segir Páll sem útskýrir fyrir blaðamanni muninn á Hybrid bíl og tengiltvinnbíl.

„Hybrid bíll er með venjulegri bensínvél auk þessa hybridbúnaðar sem gerir honum kleyft að hlaða rafmagni inn á rafmótorinn þegar bremsað er. Bremsubúnaðurinn er í raun rafall sem býr til rafmagn úr bremsukraftinum í stað þess að hleypa orkunni út með hita eins og þegar bremsað er með venjulegum diskum eða borðum. Tengiltvinnbíll er hins vegar bíll sem hægt er að stinga í samband og hlaða, og keyra kannski frá 20 upp í um 50 kílómetra á rafmagni en þegar það er búið tekur bensín- eða dísilvélin við.“

Millistig sem sparar töluverða þyngd

Bendir Páll á að í öllum almennum akstri innanbæjar sé hægt að nota rafmagnið að mestu í báðum gerðunum og þessi lausn spari því töluverða þyngd í rafhlöðum. „Þetta er í raun mjög sniðugt millistig því í staðinn fyrir að bera einhver 600 kíló í rafhlöðum undir bílnum eins og er í venjulegum rafbílum með 500 kílómetra drægni. Þeir þurfa að vera svona þungir svo þeir geti keyrt á milli landshluta, þó ekki sé alltaf verið að nota alla geymslugetuna,“ segir Páll.

Eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá hefur hlutfall hefðbundna bensín- og dísilbíla minnkað nokkuð í sölu á nýjum bílum, eða úr yfir 90% bíla fyrstu sex mánuði ársins í fyrra niður í 82% bíla fyrstu sex mánuði þessa árs. „Vistvænu bílarnir eru kannski ívið dýrari en á móti kemur að þeir eru umhverfisvænir og sparneytnir,“ segir Páll sem segir að skattaívilnanir til handa vistvænu bílunum geri þá sambærilega í verði við þá hefðbundnu.

„Ég held að það sé margt sem blandast inn í þessa þróun, bæði er umhverfisvitund fólks að aukast mjög mikið og fólk vill bíla sem menga lítið. En svo er minni eyðsla á bíl sem mengar minna, sem gerir hann ódýrari í rekstri sem er ákveðin driffjöður. Þarna hefur orðið alger eðlisbreyting ef bornir eru saman bílar nú og fyrir kannski 15 til 20 árum, það er alveg stórbreyting.“

Bílaleigur velja ekki sparneytnu bílana vegna skattkerfisins

Eins og Viðskiptablaðið ræddi við Úlfar forstjóra Toyota um fyrr í dag telur hann að samdráttinn sem orðið hefur í nýskráningum nýrra bíla fyrstu sex mánuði ársins megi rekja að mestu til leiðréttingar hjá bílaleigunum sem séu að kaupa minna eftir að hafa mögulega farið fram úr sér á síðasta ári.

„Bílaleigurnar hafa hins vegar ekki verið að taka umhverfisvænustu bílana,“ segir Páll. „Það er því þeir bera lægri vörugjöld, og þá fá þær minni afslátt. Þær hafa til dæmis ekki verið að kaupa mikið af hybrid bílunum af okkur, þó þeir séu náttúrulega langsparneytnustu bílarnir sem við erum með.“