Undirritaður hefur verið samningur milli Toyota á Íslandi og Tryggingamiðstöðvarinnar (TM) um viðbótarábyrgð sem eigendur Toyota og Lexusbifreiða sem Toyota á Íslandi hefur flutt inn geta keypt og framlengt þannig ábyrgð á bíla sína í allt að 5 ár eða að 160.000 km akstri eins og segir í tilkynningu.

Ábyrgðin er með þeim sömu skilmálum og eru tilteknir í 4. og 5. ári fimm ára ábyrgðar Toyota Motor Europe og verður hún seld hjá öllum viðurkenndum sölu- og þjónustuaðilum Toyota á Íslandi frá 11. Janúar. Fáeinar undantekningar eru á ábyrgðinni á 4. og 5. ári frá því sem viðgengst fyrstu 3 árin þegar um er að ræða búnað sem eðlilegt er að slitni á svo löngum tíma.

Í tilkynningu segir að kaupa megi 2 ára viðbótarábyrgð á allar þær Toyota- og Lexusbifreiðar sem fluttar hafa verið inn af Toyota á Íslandi ef ekki eru liðin meira en 4 ár frá söludegi. Ekki eru sett skilyrði um hvar aðrar tryggingar vegna bifreiðarinnar eru keyptar.