Toyota á Íslandi og TM kynna til leiks í upphafi nýs árs sérstakar ökutækjatryggingar fyrir Lexus og Toyota. Tryggingingarnar munu bjóðast með nýjum og notuðum bifreiðum hjá viðurkenndum söluaðilum. Núverandi eigendum Toyota- og Lexusbíla mun síðan bjóðast, innan tíðar, að kaupa ökutækjatryggingar í gegnum sjálfvirka lausn á heimasíðum Toyota og Lexus. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækjunum.

Meðal þess sem Toyota- og Lexuseigendur fá með tryggingunum er bíll að láni allan þann tíma sem bíll er í viðgerð í kaskótjónum, en ekki eingöngu þá 5 daga sem í dag tíðkast. Tryggingarnar miðast við að viðgerðir séu framkvæmdar á vegum viðurkenndra þjónustuaðila Toyota á Íslandi og verður tryggt að viðurkenndir Toyota og Lexus varahlutir séu notaðir í allar viðgerðir.

„Víða erlendis hafa bílaframleiðendur verið að ryðja sér til rúms sem öflugir seljendur ökutækjatrygginga og er okkur sönn ánægja að hafa gengið til samstarfs við TM og Toyota Insurance Management til að bjóða viðskiptavinum okkar upp á Toyota og Lexus tryggingar. Toyota býr yfir gríðarmikilli reynslu og þekkingu á sviði trygginga í gegnum samstarf og eignarhlut sinn í einu stærsta tryggingarfélagi í heimi, MS & AD Insurance Group í Japan. Toyota Insurance Management sem er í eigu tryggingararms Toyota í Evrópu – Aioi Nissay Dowa Europe – veitir samstarfinu á Íslandi ráðgjöf og stuðning. Með Toyota- og Lexustryggingum erum við enn að auka þjónustu okkar við eigendur Toyota- og Lexusbifreiða. Við teljum viðskiptavinum okkar til hagsbóta að geta gengið frá tryggingum  hjá sama fyrirtæki og það kaupir bílinn og sækir þjónustu fyrir hann,“ er haft eftir Úlfari Steindórssyni, forstjóra Toyota á Íslandi í tilkynningunni.

„Við erum stolt af því að Toyota hafi leitað eftir samstarfi við TM þegar ákveðið var að bjóða upp á Toyota- og Lexustryggingar á Íslandi. TM hefur undanfarin ár lagt áherslu á nýjar stafrænar þjónustuleiðir í tryggingum til að koma til móts við viðskiptavini og veita þeim framúrskarandi þjónustu. Samstarf TM og Toyota er varða á þeirri vegferð þar sem viðskiptavinir Toyota geta nú gengið frá bílatryggingunni um leið og bíllinn er keyptur,“ er haft eftir Sigurði Viðarssyni, forstjóra TM.