Toyota hefur rutt General Motors (GM) úr vegi sem stærsti bílaframleiðandi heims í kjölfar þess að fyrirtækið tilkynnti í gær um 9% söluaukningu á fyrsta ársfjórðungi þessa árs. Á fyrstu þremur mánuðum ársins nam salan 2,35 milljónum bíla miðað við 2,26 milljónir bíla hjá GM á sama tímabili. Þrátt fyrir að flestir sérfræðingar hafi spáð því að Toyota færi fram úr GM einhvern tíma á þessu ári var ekki búist við að það myndi gerast svona snemma.

Velgengni Toyota kemur á sama tíma og bandarískir bílaframleiðendur glíma margir hverjir við mikinn rekstrarvanda. Bandarískir neytendur eru í auknum mæli farnir að taka sparneytna japanska bíla á borð við þá sem Toyota framleiðir fram yfir hina stóru bensínháka sem General Motors býður upp á. Stjórnendur GM hafa brugðist við minnkandi markaðshlutdeild á Bandaríkjamarkaði gagnvart Toyota - og öðrum erlendum bílaframleiðendum - með því að sækja enn frekar inn á erlenda markaði.

Þetta mun vera í fyrsta skipti í sögunni sem Toyota fer fram úr GM í bílasölu á heimsvísu. Stjórnendur Toyota vilja hins vegar gera sem minnst úr þessum tímamótum og vildu ekkert láta hafa eftir sér um þau. "Okkar eina markmið er að vera númer eitt þegar kemur að gæðum. Við látum tölurnar tala fyrir sig sjálfar", sagði talsmaður fyrirtækisins.

Sérfræðingar segja að þetta sé til marks um að það að forsvarsmenn Toyota óttist viðbrögð bandarískra neytenda - og í kjölfarið stjórnvalda - við þessari nýju stöðu sem upp er komin. Debbie Stabenow, þingmaður Michiganríkis, sem situr í fjármálanefnd bandaríska þingsins, lét nýlega hafa eftir sér að samkeppnisstaða bandarískra bílaframleiðanda væri ósanngjörn gagnvart keppinautum þeirra í Japan, sökum þess að japanska jenið væri vanmetið og það skekkti alla eðlilega samkeppni.

Stjórnendur Toyota hafa að undanförnu reynt að mæta þessari gagnrýni með því að benda á þá staðreynd að flestir bílar sem seldir eru á Bandaríkjamarkaði séu framleiddir í verksmiðjum þar í landi. Einnig er stutt síðan að fyrirtækið skipaði Bandaríkjamanninn Jim Press sem framkvæmdastjóra yfir starfsemi Toyota í Norður-Ameríku, en það mun vera í fyrsta sinn sem Japani er ekki skipaður í jafn ábyrgðarmikla stöðu innan fyrirtækisins.