Toyota á Íslandi og Toyota í Kópavogi hafa óskað eftir því að starfsmenn fyrirtækjanna minnki starfshlutfall sitt í 90%.

Þetta gert til þess að laga rekstur fyrirtækjanna að samdrætti í sölu nýrra bifreiða, segir í tilkynningu frá Toyota.

„Að undanförnu hefur verið gripið til margvíslegra ráðstafana til að draga úr kostnaði í rekstri fyrirtækjanna og nú er ljóst að komið er að því að lækka þarf launakostnað,“ segir í tilkynningunni.

Þá kemur fram að með því að óska eftir því að starfshlutfall lækki vilja fyrirtækin gefa starfsmönnum kost á að axla byrðarnar jafnt, og gefa öllum kost á að taka þátt í því að bregðast við samdrættinum.

„Starfsfólk Toyota er samhentur og góður hópur sem sýnir dugnað og ósérhlífni þegar mikið er að gera, og starfsmenn hafa fengið að njóta þess þegar fyrirtækin ganga vel. Hópurinn er einnig þekktur fyrir að vera samhentur þegar á móti blæs. Við teljum þessa leið þá sanngjörnustu sem hægt er að fara á þessari stundu og við viljum með þessu gefa hópnum tækifæri til að taka á verkefninu saman“ segir Úlfar Steindórsson, forstjóri Toyota á Íslandi í tilkynningunni.

„Við munum leita allra leiða til að þessi ráðstöfun komi ekki niður á viðskiptavinum okkar og það er einhugur um að veita að minnsta kosti jafn góða þjónustu eftir þetta og við höfum gert hingað til“, segir Úlfar.

Þá kemur fram að lægra starfshlutfall mun gilda hjá öllum starfsmönnum fyrirtækjanna frá 1. janúar 2009 þar til annað verður ákveðið, en fyrirkomulag þetta verður endurskoðað mánaðarlega.

Rétt er að taka fram að Toyota Reykjanesbæ, Akureyri, Austurlandi og Selfossi eru sjálfstæð félög sem reka söluumboð og verkstæði. Þau eru í eigu annarra en framangreind fyrirtæki og á þessi tilkynning ekki við um þau.