Japanski bílaframleiðandinn Toyota seldi fleiri bíla á fyrsta ársfjórðungi en nokkurt annað fyrirtæki. Fyrirtækið seldi 2,58 milljónir bíla á þessu þriggja mánaða tímabili sem var 6% meira en á sama tíma í fyrra. Til samanburðar seldu bílarisarnir GM og Volkswagen hvor um sig í kringum 2,4 milljónir bíla. Þetta var þriðji ársfjórðungurinn í röð sem Toyota heldur toppsætinu.

Bloomberg-fréttaveitan segir söluaukninguna hjá Toyota skýrast öðru fremur af aukinni eftispurn eftir bílum í Japan og Kína.

Þessu til viðbótar var síðasta ár afar ábatasamt fyrir Toyota, sem hefur aldrei skilað jafn miklum hagnaði og þá. Hagnaðurinn nam sem svarar til 18,5 milljarða dala, sem skýrist öðrum fremur af veikingu japanska jensins.