Japanski bílaframleiðandinn Toyota seldi mest allra í Bandaríkjunum á síðasta ári. Þetta er í fyrsta skipti sem Toyota nær þeim áfanga, að því er fram kemur í grein Wall Street Journal . Bandaríski bílaframleiðandinn General Motors (GM) hefur verið söluhæsti bílaframleiðandinn vestanhafs samfleytt frá árinu 1931 þar til nú.

Toyota, sem hefur unnið markvisst að aukinni markaðshlutdeild vestanhafs, seldi um 2,3 milljónir bíla í Bandaríkjunum í fyrra og jók sölu sína um 10% milli ára. Þetta kom fram í tilkynningu frá bílaframleiðandanum í gær. Til samanburðar dróst sala GM saman um 13% milli ára og seldi bílaframleiðandinn 2,2 milljónir bíla í fyrra. Seldi Toyota um 114 þúsund fleiri bíla en GM.

Sjá einnig: Skortur gæti varað næsta árið

Að einhverju leyti má rekja breytingu á toppsætinu til skorts á hálfleiðurum á heimsvísu en hálfleiðarar þykja nauðsynlegir við framleiðslu á nútíma bílum þótt þeir hafi ójöfn áhrif á bílaframleiðendur. Skorturinn hafði meiri áhrif á framleiðslugetu GM samanborið við Toyota, samkvæmt grein WSJ. Í greininni segir að þó Toyota glími vissulega við alvarlegan skort á bílum, sé framleiðandinn mun betur settur en samkeppnisaðilar.

Áður en skorturinn varð til hafði Toyota safnað birgðum af hálfleiðurum og öðrum tölvukubbum. Toyota hafði ekki fylgt svokallaðri „Just-in-time" stefnu í framleiðslu ólíkt öðrum bílaframleiðendum, en það felst í því að panta aðföng í framleiðsluna nákvæmlega þegar þörf er á þeim. Því hafa verksmiðjur Toyota verið að afkasta nálægt hámarksgetu á meðan verksmiðjum annarra framleiðenda hefur fækkað.