Vörumerki japanska bílaframleiðandans Toyota hefur tekið fram úr þýska bílarisanum BMW sem verðmætasta vörumerki heims í ökutækjageiranum. Það er markaðsrannsóknarfyrirtækið Brandz sem tekur listann saman. Vörumerki Toyota er metið á 24,5 milljarða dala, jafnvirði 3 þúsund milljarða króna, sem er 12% meira en í fyrra. Toyota er í 23. sæti á listanum yfir hundrað verðmætustu vörumerki heims. Á toppinum trónir Apple en vörumerki fyrirtækisins er metið á 185 milljarða dala. Netfyrirtækið Google er í 2. sæti listans. BMW er svo í 24. sætinu.

Bandaríska dagblaðið USA Today fjallar um vörumerkjalistann og segir að greina megi af auknu verðmæti vörumerkis Toyota að bílaframleiðandinn hafi rétt úr kútnum í kjölfar erfiðleika síðastliðin tvö ár.

Aðrir bílaframleiðendur eru nokkuð á eftir Toyota á vörumerkjalista Brandz. Mercedes Benz er í 43. sæti listans, þremur sætum ofar en í fyrra, og er vörumerkið metið á 18 milljarða dala. Þá er Honda í 71. sæti og fellur um sex sæti á milli ára. Volkswagen er svo í botnsætinu en vörumerkið er metið á 8,7 milljarða dala.

Skýrsla og listi Brandz