Magnús Kristinsson, fjárfestir og stjórnarformaður Toyota á Íslandi, hefur fest kaup á Árna Gíslasyni ehf. sem sérhæfir sig í bílaréttingum og sprautun, en það mun verða Toyota í Kópavogi ehf. sem mun reka ÁG, sem hluta af sinni starfsemi.

"Ástæðan fyrir kaupunum á Bifreiðaverkstæði Árna Gíslasonar er einföld: Við stefnum að því að veita viðskiptavinum okkar framúrskarandi þjónustu í öllum þáttum þjónustuferlisins," segir Magnús Kristinsson aðspurður. "Bifreiðaverkstæði Árna Gíslasonar hefur verið starfrækt sem fjölskyldufyrirtæki með myndarbrag í yfir 50 ár og með kaupum okkar á því skapast gríðarlega spennandi sóknarfæri í átt að því takmarki okkar að framfylgja þjónustustigi gagnvart Toyotaeigendum sem uppfyllir og fer jafnvel fram úr þeim væntingum sem þegar eru til okkar gerðar. Kaupin eru jafnframt rökrétt framhald af þeirri ákvörðun sem við tókum á síðasta ári þegar við keyptum bifreiðaverkstæði Kópavogs, en þá voru formerki kaupanna þau sömu -- að auka þá þjónustu sem við veitum nú þegar í dag. Með auknum fjölda Toyota bifreiða í umferð er aukin þörf fyrir þjónustu og við leggjum mikið upp úr því að tryggja Toyotaeigendum sem besta þjónustu."