Mest seldist af bílum undir merkjum Toyota hér á landi á síðasta ári samkvæmt upplýsingum Umferðastofu og Bílgreinasambandsins. Á eftir fylgdi Volkswagen, Skoda og Kia. Þar á eftir var Chevrolet fimmti mest seldi bíllinn, Suzuki þar á eftir en svo komu Hyundai og Honda.  Loks Nissan, Ford, Mazda og Renault. Svo þýsku lúxusmerkin Mercedes-Benz og Audi. Hvorki fleiri né færri en 1.137 bílar Toyota voru nýskráðir í fyrra sem er um 14% samdráttur á milli ára. Toyota er með 15,6% markaðshlutdeild í bílasölu.

Eins og fram kom á VB.is fyrr í dag voru 7.267 nýir bílar seldir í fyrra samanborið við 7.896 árið 2012. Það jafngildir um 8% samdrætti á milli ára. Samdrátturinn skýrist að nær öllu leyti af minni kaupum bílaleiga á nýjum bílum. Sala á bílum til einstaklinga var svo til óbreytt á milli ára.

Athygli vekur að tvö vörumerki skara fram úr öðrum. Það eru Dacia, en sala á bílum undir merkjum fyrirtækisins jókst um mörg hundruð prósent frá í hittifyrra. Merkið er nýtt hér á landi og hófst salan árið 2012. Sala á Chevrolet-bílum jókst um 33% á milli ára. Á sama tíma jókst markaðshlutdeildin talsvert, fór úr 5,8% í 8,4%.

Björn Ragnarsson, framkvæmdastjóri bílasviðs hjá Bílabúð Benna, segir í samtali við VB.is að Bílabúðin hafi reynt að halda verðinu niðri. Það hafi tekist með hagstæðum samningum við Chevrolet.

Árétting: Í upphaflegri gerð fréttarinnar sagði að bílar Chevrolet væru í þriðja sæti yfir mest seldu bílana hér á landi í fyrra. Það er ekki allskostar rétt. Hann vermir hins vegað það sæti ef einungis er litið til sölu einstaklinga á bílum og sala á bílum til bílaleiga undanskilin sölutölunum.