Japanski bílaframleiðandinn Toyota keyrði fram úr bandaríska keppinautinum General Motors (GM) á síðasta ári og tryggði sér á ný toppsætið yfir þau fyrirtæki sem seldu flesta bílana. Toyota seldi 9,7 milljónir bíla í fyrra samanborið við 9,29 milljónir bíla hjá GM. GM var um árabil söluhæsti bílaframleiðandi í heimi. Toyota tryggði sér hins vegar toppsætið árið 2008 og hélt því fram til loka árs 2011. Sala á nýjum bílum jókst um 22% hjá Toyota en 2,9% hjá GM á milli ára í fyrra.

Fram kemur í umfjöllun AP-fréttastofunnar að ástæðan fyrir sætaskiptunum árið 2011 hafi verið sú að náttúruhamfarir, jarðskjálftar og flóð í Japan og Taílandi, hægðu á framleiðslunni hjá Toyota. Framleiðsla á nýjum bílum jafnaði sig í fyrra og er nú komin á fullt skrið með fyrrgreindum árangri. AP hefur eftir sérfræðingi hjá bílagreiningarfyrirtækinu LMC Automative, að líklega muni Toyota halda sætinu á þessu ári.