Systurfélög Toyota umboðsins á Íslandi högnuðust samanlagt um 228 milljónir króna á síðasta ári, samanborið við 176 milljónir árið 2019. Stjórnir félaganna leggja til að greiddar verði út 400 milljónir króna í arð vegna síðasta rekstrarárs, þar af 300 milljónir hjá Toyota á Íslandi ehf. og 100 milljónir hjá TK bílum efh. Félögin greiddu ekki út arð á síðasta ári.

Sala Toyota á Íslandi dróst saman um 5% og nam 9,2 milljörðum króna en rekstrartekjur TK bíla hækkuðu um hálft prósent og voru 13,3 milljarðar króna. Sala nýrra bíla dróst saman á síðasta ári en um sumarið varð aukning á sölu notaðra bíla, að því er kemur fram í ársreikningum félaganna.

Í skýrslu stjórnar segir að áhrif af Covid-19 heimsfaraldri voru mun minni á rekstur félagsins en gera mátti ráð fyrir í upphafi hans. Félagið nýtti að hluta þau úrræði stjórnvalda sem í boði voru auk þess að frysta af hluta af afborgunum lána í sex mánuði.

Eigið fé Toyota á Íslandi ehf. nam 757 milljónum króna og skuldir 1,5 milljörðum í árslok 2020. Hjá TK bílum ehf. var eigið fé 1,8 milljarðar króna í lok árs og skuldir 2,2 milljarðar.

Félögin er í eigu UK fjárfestinga sem er aftur í jafnri eigu annars vegar eignarhaldsfélags hjónanna Úlfars Steindórssonar og Jónu Óskar Pétursdóttur og hins vegar félags hjónanna Kristjáns Þorbergssonar og Þórunnar Sigurðardóttur.