„Toyota á Íslandi ber hag allra Toyotaeigenda fyrir brjósti og lítur á hvern og einn sem mikilvægan meðlim Toyotafjölskyldunnar, burtséð frá því hvar viðkomandi bifreið var keypt.“ Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Toyota umboðinu.

Georg Mikaelsson, eigandi Úrsusar, gagnrýndi í dag Toyota umboðið harðlega fyrir bréf sem viðskiptavinum Úrsusar voru send í júlí. Úrsus flytur inn Toyota frá Þýskalandi og selur bílana hér. Í bréfi Toyota er varað við því að bílar sem keyptir eru hjá umboðinu eru nýskráðir áður en þeir koma til Íslands.

Í bréfinu segir einnig :
„Toyota á Íslandi selur allar bifreiðar sem það flytur inn með fimm ára ábyrgð og greiðir Toyota Motor Europe sérstaklega fyrir árin tvö umfram þriggja ára verksmiðjuábyrgðina.“

Í yfirlýsingu sem VB.is barst frá Toyota umboðinu í dag segir að Toyota á Íslandi hafi aldrei haldið því fram að bílar sem Úranus selur séu ekki með 5 ára ábyrgð.  „Toyota á Íslandi selur hinsvegar allar sínar bifreiðar með 5 ára verksmiðjuábyrgð sem tekur gildi um leið og bifreiðin er seld á Íslandi, en fyrnist ekki vegna fyrri skráningar í öðru landi,“ segir í bréfinu.

Þá segir Toyota umboðið að fyrirtækið óski viðskiptavinum Úranusar til hamingju með Toyotuna, bjóði alla Toyotaeigendur velkomna til viðurkenndra þjónustuaðila víða um land og að Toyota umboðið sé boðið og búið að veita upplýsingar er lúta að ábyrgð og réttindum Toyotaeigenda.

Yfirlýsing frá Toyota á Íslandi
Toyota á Íslandi ber hag allra Toyotaeigenda fyrir brjósti og lítur á hvern og einn sem mikilvægan meðlim Toyotafjölskyldunnar, burtséð frá því hvar viðkomandi bifreið var keypt

Einmitt þess vegna ákvað Toyota á Íslandi að senda kaupendum bifreiða sem fluttar voru inn frá Þýskalandi af Úranusi umrætt bréf í þeim tilgangi að upplýsa viðkomandi Toyotaeigendur um þarfar staðreyndir er varða gildistíma verksmiðjuábyrgðar og endursöluverð bifreiða sem fluttar eru inn til Íslands, sem og að bjóða viðkomandi velkominn í þjónustu til viðurkenndra þjónustuaðila fyrirtækisins.

Svo því sé haldið til haga er vert að leiðrétta rangfærslu Georgs Mikaelssonar hjá Úranusi í yfirlýsingu sem hann sendi til Viðskiptablaðsins. Toyota á Íslandi hefur aldrei haldið því fram að bílar sem Úranus selur séu ekki með 5 ára ábyrgð.  Toyota á Íslandi selur hinsvegar allar sínar bifreiðar með 5 ára verksmiðjuábyrgð sem tekur gildi um leið og bifreiðin er seld á Íslandi, en fyrnist ekki vegna fyrri skráningar í öðru landi.

Eins og fram kemur í bréfi Toyota á Íslandi til viðskiptavina Úranusar óskar fyrirtækið viðkomandi til hamingju með Toyotuna, býður alla Toyotaeigendur velkomna til viðurkenndra þjónustuaðila víða um land og er boðið og búið veita upplýsingar er lúta að ábyrgð og réttindum Toyotaeigenda.