*

laugardagur, 23. október 2021
Innlent 20. janúar 2021 13:44

Toyota valdi Pipar\TBWA

Eftir að hafa starfað með Íslensku auglýsingastofunni í yfir tvo áratugi hélt bílaumboðið samkeppni fjögurra auglýsingastofa.

Ritstjórn
Guðmundur Pálsson er framkvæmdastjóri auglýsingastofunnar Pipar\TBWA.
Aðsend mynd

Toyota efndi til samkeppni milli fjögurra auglýsingastofa um framtíðarviðskipti um auglýsinga- og markaðsmál nýlega og á endanum stóð Pipar\TBWA uppi sem sigurvegari í samkeppninni. Toyota á Íslandi vann með Íslensku auglýsingastofunni í 23 ár,

Guðmundur Pálsson, framkvæmdastjóri Pipar\TBWA, segir að fyrirtækið hafi sjaldan farið í gegnum jafn ítarlegt og faglegt ferli og var við þessa samkeppni, en samningur hefur verið undirritaður um samstarf félaganna næstu árin.

„Mjög nákvæm skoðun átti sér stað á stöðu stofunnar, gæðum vinnu, teymissamsetningu og hugmyndaauðgi ásamt því að menning stofunnar og hvernig teymi Toyota og teymi stofunnar myndu passa saman. Við erum því enn stoltari af því að Toyota á Íslandi skyldi velja okkur eftir svo ítarlegt og metnaðarfullt ferli,“ segir Guðmundur um sigurinn í samkeppninni.

„Við erum mjög stolt af því að Toyota á Íslandi skyldi treysta okkur fyrir þessu verkefni. Toyota hefur í langan tíma verið söluhæsti bíll á Íslandi og vörumerkið það sterkasta á bílamarkaði. Það hafa allir tengingu og/eða skoðun á Toyota. Þessu fyrirtæki hefur tekist, með staðfestu og skýrri makaðssetningu, að búa til mjög sterka og skýra ímynd á vörumerkinu hvað varðar gæði og góða þjónustu. Að taka við keflinu núna og gera enn betur í framtíðinni er áskorun sem gaman verður að takast á við.“