Bandaríski leikfangarisinn Toys “R” Us hefur dregið til baka útboðslýsingu sína og hætt við skrásetningu á markað. Á vef New York Times kemur fram að stjórn félagsins segir markaðsaðstæður ekki hagstæðar um þessar mundir en unnið hefur verið að skráningu félagsins um nokkurt skeið.

Það virðist þó ekki koma greiningaraðilum vestanhafs á óvart að leikfangakeðjan hafi dregið útboðslýsingu sína til baka. Toys “R” Us hefur átt erfitt uppdráttar síðustu misseri og hafa verið í harðri samkeppni við verslunarrisann Walmart sem og netverslunina Amazon.

Toys “R” Us rekur um 1.450 verslanir víða um heim, flestar í Bandaríkjunum. Félagið tilkynnti um ákvörðun sína í gær, á sama tíma og það kynnti uppgjör fjórða ársfjórðung síðasta árs. Þar kom fram að sala félagsins hefði dregist saman um 2,6% á milli ára þó hún hafi á sama tíma numið um 5,8 milljörðum Bandaríkjadala. Hagnaður félagsins á tímabilinu nam 234 milljónum dala, samanborið við 343 milljónir dala árið áður.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Toys “R” Us hættir við skráningu á markað en áður var fyrirhugað að skrá félagið á markað vorið 2010. Toys “R” Us er í eigu fjárfestingasjóðanna Bain Capital og Kohlberg Kravis Roberts & Company og fasteignasjóðsins Vornado Realty Trust. Saman keyptu þeir félagið fyrir 6,6 milljarða dala árið 2005 og þóttu það ein bestu viðskipti þess árs. Þessir sjóðir hafa þó aldrei litið á sig sem langtímaeigendur leikfangakeðjunnar og hafa nokkrum sinnum reynt að selja hana, án árangurs.