*

mánudagur, 2. ágúst 2021
Innlent 18. desember 2007 17:38

Toys-R-Us sigar lögmönnum á Just4Kids

Ritstjórn

Lögmenn Toys-R-Us hafa sent bréf til leikfangaverslunarinnar Just4Kids og hóta aðgerðum ef Just4Kids hættir ekki að bera saman verð verslananna tveggja í auglýsingum. Lögmenn Toys-R-Us krefjast þess einnig að ekki verði sagt frá því í auglýsingum að verðið í  Just4Kids sé “miklu, miklu lægra en í Toys-R-Us”.

Í tilkynningu frá Just4Kids segir að verslunin hafi fyrir skömmu tilkynnti um grimma verðsamkeppni á leikfangamarkaði fyrir þessi jól og beindi spjótunum óhikað að alþjóðlegu verslunarkeðjunni Toys-R-US sem rekur verslun í Kópavogi. Nýleg verðkönnun leiddi í ljós að Just4Kids var oftast með lægsta verðið á leikföngum. Með verðsamanburði í auglýsingum var sýnt fram á að Just4Kids var mun ódýrari en samkeppnisaðilinn. Toys-R-Us virðist ekki ætla að mæta þeirri miklu verðlækkun sem Just4Kids boðaði en sendir hinsvegar bréf frá lögmönnum og krefst þess að Just4Kids láti af því sem þeir kalla “ólögmætum viðskiptaháttum”.

Haft er eftir Elíasi Þorvarðarsyni framkvæmdastjóra Just4Kids í tilkynningunni: “Við svörum svona bréfum ekki öðruvísi en með beinum markaðsaðgerðum. Við værum ekki að þjóna neytendum ef við færum að gerast pennavinir samkeppnisaðila okkar. Toys-R-US er reyndar rekin af dönskum aðilum og ég veit ekki hvernig dönsk samkeppnislög eru. Hérlendis væri hinsvegar umsvifalaust slegið á puttana á mönnum ef tvær leikfangaverslanir, með yfirburðastöðu á markaðinum, væru að skiptast á sendibréfum um það hvernig þær eigi og eigi ekki að auglýsa. Þetta er einfaldlega hörð samkeppni og almenningur hefur tekið verðlækkun okkar fagnandi. Við höfum birt raunverulegt verð á leikföngum í þessum verslunum, meðal annars með því að birta kassakvittanir úr báðum verslunum og við stöndum fyllilega við það að vera miklu ódýrari en Toys-R-Us. Þeir hafa greinilega ekki annað svar en að hóta lögfræðiaðgerðum."

Til stuðnings kröfu sinni um að ekki verði borin saman verð í verslununum tveimur vísa lögmenn Toys-R-Us í lög nr. 57 frá árinu 2005 um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins, samkvæmt því sem segir í tilkynningunni.