Sigurjón Örn Þórsson, framkvæmdastjóri Kringlunnar segir framkvæmdir við væntanlega verslun H&M í verslunarmiðstöðinni gangi vel. Félagið fékk húsnæðið afhent í júlí en um er að ræða rýmið á annarri hæð, þar sem Hagkaup var áður með aðra verslun sína í húsinu í júlí síðastliðnum.

Verslunin sem verður opnuð seinni hluta september er í 2.600 fermetra rými, en fleiri verslanir eru að opna nú í tilefni 30 ára afmælis verslunarmiðstöðvarinnar að því er Morgunblaðið greinir frá.

Mun leikfangaverslunin Toys"R"Us einnig opna þar í næsta mánuði, eða þann 21. september, og verður það fjórða verslun fyrirtækisins hér á landi. Um er að ræða eitt stærsta rými Kringlunnar, eða 2.000 fermetrar, þar sem verslun Next var áður til húsa, við innganginn sem gengið er inn til að komast í Kringlubíó.

Núna um mánaðarmótin mun svo Nespresso verslun opna í hluta af því rými sem nú hýsir Topshop, en sú verslun lokar undir lok mánaðarins. Auk þess mun kökuverslunin 17 sortir opna við hlið Útilífs á fyrstu hæð Kringlunnar. Að lokum mun svo ný verslun Hagkaupa opna í október.