Japanski bílaframleiðandinn Toyota, stærsti bílaframleiðandi heims hefur nú endurskoðað afkomuspá sína fyrir árið í ár í kjölfarið þrefalda áætlað tap sitt á árinu.

Í desember síðastliðnum birti Toyota afkomuspá sína þar sem gert var ráð fyrir 150 milljarða jena tapi á árinu eða því sem nemur rúmum 1,6 milljörðum dala.

Nú hefur Toyta sem fyrr segir þrefaldað áætlað tap sitt og gerir ráð fyrir að tap félagsins á árinu verði um 450 milljarða jena. Ef spáin reynist rétt verður þetta fyrsta árstap félagsins í 70 ár.

Þrátt fyrir að Toyta eigi ekki í sömu rekstrarerfiðleikum og bandarískir bílaframleiðendur hefur eftirspurn eftir bifreiðum minnkað ört auk þess sem japanska jenið hefur styrkst nokkuð sem gerir útflutningsfyrirtækjum erfitt fyrir.

Toyota hyggst mæta niðursveiflunni með því að segja upp starfsfólki, þó ekki í Japan en félagið mun engu að síður loka verksmiðjum sínum í hálfan mánuð í kringum næstu mánaðarmót.