Bandaríski einkafjárfestingarsjóðurinn TPG Capital greindi frá því í gær að félagið hefði dregið sig úr slagnum um hlut ítalska ríkisins í flugfélaginu Carrier Alitalia. Í kjölfarið eru aðeins tveir fyrirtækjahópar eftir sem hafa hug á því að leggja fram tilboð í Alitalia, en hið ríkisrekna flugfélag hefur verið rekið með tapi undanfarin misseri.

Í tilkynningu sem TPG-hópurinn sendi frá sér kemur fram að hann hafi ekki verið í aðstöðu til að mæta öllum þeim kröfum sem ítalska fjármálaráðuneytið - sem ræður yfir eignarhlutnum - hefði sett í söluferlinu. Ráðuneytið ákvað í síðustu viku að það væri reiðubúið að selja allan hlut sinn í flugfélaginu (49,9%), ef einhver tilboðsgjafi óskaði eftir því. Áður hafði ítalska ríkið sagst ætla að halda eftir tíu prósenta hlut.