Hagnaður Orkuveitu Reykjavíkur á árinu 2005 var 4.359 milljónir króna samanborið við 3.671 milljónir króna árið áður. Rekstrartekjur ársins námu um 14.728 milljónum króna en voru um 13.184 milljónir árið 2004. Hagnaður fyrirtækisins fyrir afskriftir og fjármagnsliði, EBITDA, var 6.540 milljónir króna samanborið við 5.130 milljónir króna árið 2004. Afskriftir varanlegra rekstrarfjármuna voru 3.237 milljónir króna á árinu en 3.206 milljónir króna árið áður að því er kemur fram í tilkynningu þeirra.

Fjármagnsliðir voru 1.067 milljónir króna árið 2005, en voru 1.741 milljónir króna árið áður.

Heildareignir í árslok 2005 voru 88.039 milljónir króna en voru 74.230 milljónir árið áður.

Eigið fé í lok ársins var 48.298 milljónir króna en var 42.002 milljónir árið áður.

Heildarskuldir í árslok 2005 voru 39.741 milljónir króna en voru 32.228 milljónir króna í árslok 2004.

Eiginfjárhlutfall var 54,9% en var 56,5% árið áður.

Í tilkynningu félagsins kemur fram að horfur eru góðar um rekstur Orkuveitu Reykjavíkur í heild fyrir árið 2006. Umsvif fara verulega vaxandi og fjárfestingar eru miklar. Áfram verður mikil uppbygging kerfa samfara aukningu byggðar á þjónustusvæði fyrirtækisins og aukinni orkuvinnslu. Einnig verður unnið að rannsóknum á frekari virkjunarkostum til framtíðar og er verið að afla leyfa í því skyni. Stærsta einstaka verkefnið er bygging nýrrar virkjunar á Hellisheiði sem mun stórauka eigin orkuvinnslugetu fyrirtækisins.

Frá og með 1. janúar 2006 taka gildi lög um skattskyldu orkufyrirtækja. Þetta mun leiða af sér reiknaða tekjuskattsinneign sem færð verður í bækur fyrirtækisins þann 1. janúar 2006 og mun mótbókunin verða til hækkunar á eigin fé. Gert er ráð fyrir að fjárhæðin verði á bilinu 2-3 milljarðar króna.