*

þriðjudagur, 27. júlí 2021
Innlent 30. nóvember 2004 14:10

Tæplega 24 þúsund lífeyrisþegar fá eingreiðslu

Ritstjórn

Tæplega 24 þúsund lífeyrisþegar fá eingreiðslu frá Tryggingastofnun fyrir jólin eða rúmlega helmingur allra lífeyrisþega. Við endurreikning bótaréttar ársins 2003 kom í ljós að 23.578 lífeyrisþegar eiga inneign hjá TR sem greidd verður út í desember. 10.773 lífeyrisþegar hafa fengið ofgreitt á árinu og þær fjárhæðir verða innheimtar eftir áramót. Heildarfjárhæð inneigna nemur rúmum milljarði króna og kröfurnar nema svipaðri fjárhæð.

Inneignir eru í flestum tilvikum innan við 50 þúsund krónur en tæplega 8 þúsund lífeyrisþegar eiga minna en 10 þúsund króna inneign hjá TR. Skuldir eru flestar undir 50 þúsundum króna. Umræddar fjárhæðir koma til með að lækka sem nemur staðgreiðslu skatta. Kröfur sem eru 3 þúsund krónur eða lægri verða felldar niður. Í þeim hópi eru 1.175 lífeyrisþegar og fjárhæðin nemur samtals rúmri hálfri annarri milljón króna. Hjá um 6 þúsund lífeyrisþegum þarf ekki að gera neinar leiðréttingar.

Alls voru 41.724 lífeyrisþegar endureiknaðir en bótarétturinn var ákvarðaður á grundvelli endanlegra tekna eftir álagningu skattyfirvalda. Tilgangurinn með því að endurreikna réttindi til tekjutengdra lífeyrisgreiðslna er að lífeyrisþegar fái þær greiðslur sem þeim ber miðað við endanlegar tekjur samkvæmt skattframtali. Endurreiknaðar voru greiðslur lífeyris, tekjutryggingar, tekjutryggingarauka og heimilisuppbótar, en þessar greiðslur námu um 27 milljörðum króna á árinu 2003.

"Endurreikningurinn sýnir glöggt hversu mikilvægt er að samvinna lífeyrisþega og TR sé góð," segir Ágúst Þór Sigurðsson framkvæmdastjóri lífeyristryggingasviðs í tilkynningu frá félaginu. "Fyrir okkur er aðalatriðið að allir lífeyrisþegar fái þær bætur sem þeir eiga rétt á og það er ánægjulegt að geta leiðrétt vangreiðslur ársins hjá fjölda fólks. Með nýju fyrirkomulagi vöktum við enn betur en áður að lífeyrisþegar fái það sem þeim ber en megin forsendan fyrir því eru vandaðar tekjuáætlanir. Það verður heldur aldrei nógu vel brýnt fyrir fólki að láta TR vita strax og breytingar verða á tekjum."

Helstu ástæður fyrir ofgreiðslum eru hærri launa- eða lífeyrissjóðstekjur en gert var ráð fyrir í áætlun, eingreiðslur frá lífeyrissjóðum og hærri fjármagnstekjur. Að sama skapi eru helstu ástæður fyrir vangreiðslum þær að TR hefur ekki haft upplýsingar um lækkun eða brottfall tekna lífeyrisþega.

Niðurstöður endurreikningsins ásamt upplýsingabæklingi með leiðbeiningum og skýringum berast lífeyrisþegum á næstu dögum en frestur til að koma að athugasemdum við hann er veittur til 13. desember.