Vinnumálastofnun bárust 64 tilkynningar um hópuppsagnir í október þar sem samtals var sagt upp 2.950 manns. Tæplega helmingur tilkynninganna voru vegna uppsagna starfsmanna í mannvirkjagerð. Um fimmtungur uppsagnanna eru vegna tilkynninga frá fyrirtækjum í fjármálageiranum, og vega uppsagnir viðskiptabankanna þriggja sem þjóðnýttir voru á dögunum þar þyngst. Þetta kemur fram í frétt Vinnumálastofnunar.

Um 93% uppsagnanna voru á höfuðborgarsvæðinu, en aðrar hópuppsagnir dreifast á Suðurnes, Vesturland, Norðurland eystra og Suðurland.

„ Heildarfjöldi starfsmanna þeirra fyrirtækja sem tilkynntu uppsagnir er tæplega 11.000 og því eru þessi fyrirtæki sem um ræðir að segja upp um 28% starfsmanna sinna að jafnaði. Mjög misjafnt er þó milli atvinnugreina hve hátt hlutfallið er. Þannig eru fyrirtæki í mannvirkjagerð að jafnaði að segja upp ríflega 42% sinna starfsmanna og er dreifingin allt frá 15% upp í 100%,” segir í frétt Vinnumálastofnunar.

Ástæður uppsagnanna eru sagðar vera verkefnaskortur, fjárhagserfiðleikar og óvissa um framtíðarhorfur. Alls hefur meira en 4.400 manns verið sagt upp á árinu 2008 að hópuppsögnum meðtöldum. Um 67% uppsagnanna barst í lok október. Fram að því höfðu borist á milli 0 og 4 tilkynningar í mánuði, að því er Vinnumálastofnun segir frá.